Heilsuhraust manneskja vill þúsund hluti, en veik manneskja vill aðeins einn

Heilsuvegferðin mín

Allir eiga sína heilsusögu og heilsuáskoranir. Ég deili minni hér í þeim tilgangi að veita þér innblástur til að setja heilsuna í forgang og trú á að það sé hægt að móta leiðina út úr langvinnum verkjum og heilsuleysi.

Mörg þau sem vinna með heilsu eiga þá sögu að hafa alltaf haft áhuga á heilsu og vellíðan. Það er ekki mín saga, ég hafði í raun engan sérstakan áhuga á heilsu. Ég hafði bara áhuga á að hafa orku til að geta sinnt bæði skyldum og áhugamálum lífsins og var oft ansi fúl út í líkamann fyrir að geta ekki bara verið í lagi.
Það var ekki fyrr en heilsan fór alveg á hliðina og öll sund virtust lokuð, að ég ákvað að hella mér í heilsutengd fræði, staðráðin í að finna leið til að endurheimta heilsuna og ná að skilja hvað ég þyrfti að gera til að halda henni á góðum stað. 

Heilsan hefur í raun verið mér áskorun síðan ég var barn þegar ég greindist með Hashimoto’s vanvirkan skjaldkirtil. Móðir mín hafði þá gengið með mig á milli lækna í um tvö ár að reyna að finna út hvað væri að dótturinni sem breyttist úr brosandi lífsglaðri stelpu í skapvonda og síþreytta stelpu. Þær eru þónokkuð margar sögurnar sem móðir mín hefur rifjað upp andvarpandi, eins og „þegar þú, 5 ára, lagðist ítrekað niður á gangstéttina og sagðist ekki labba skrefinu lengra vegna þreytu! Og ég þurfti að halda á þér um allt”.

Svo kom greiningin loks, ég var greind með Hashimoto’s vanvirkan skjaldkirtil. Ég fékk skjaldkirtilslyf sem komu mér í einhverskonar jafnvægi. Ég varð þó ekki sama hressa stelpan aftur, læknaheimsóknir voru algengar vegna allskyns kvilla sem lítið var um svör við.

Orkuleysi, heilaþoka, stoðkerfisverkir, höfuðverkir, sveppasýkingar, húðvandamál, þyngdaraukning, alls kyns mataróþol og meltingartruflanir hafa verið reglulegir gestir hjá mér. Ég hef fengið allskonar greiningar eins og vefjagigt, mígreni, latan ristil, bakflæði, athyglisbrest (ADD), staðbundin verkjanæming, brjósklos og hrörnunarbreytingar í liðþófum. Ég hef verið í allskyns þjálfun og meðferðum sem björguðu mér í gegnum erfið tímabil en náðu ekki að rót vandans. Ég hef líka fengið lyf við mörgum af þessum einkennum, sum virkuðu vel, en mörg voru bara vel þegnir plástrar á einkennin í einhvern tíma og svo komu aukaverkanir sem færðu mér ný vandamál – og gömlu vandamálin komu aftur. 

upp og niður heilsa

Heilsan var dáldið eins og jójó – upp og niður og erfitt að treysta á hana og skipuleggja lífið, því ef heilsan fór niður fór allt skipulag í vaskinn. Ég náði þó að skapa mér aðstæður til að starfa sjálfstætt og gat þannig haft betri stjórn á vinnunni og dregið úr henni eða stoppað ef þurfti – sem gat verið ansi stressandi afkomulega. En heilsan hafði líka mikil áhrif á lífið í heild, orkan til að sinna fjölskyldunni, taka þátt í félagslífi, íþróttum og áhugamálum var oft af skornum skammti.

Allir sjúkdómar byrja í þörmunum

Ég var svo heppin að komast um 25 ára gömul ( á síðustu öld! 🙂 ) í meðhöndlun hjá bæði Hallgrími Magnússyni og Helga Valdemarssyni læknum, sem voru meðal örfárra sem höfðu þekkingu á mikilvægi meltingar og örveruflórunnar á þeim tíma. Það skipti sköpum fyrir mig að meðhöndla örveruóreiðuna og ofvöxt Candida sveppsins með réttu mataræði og þannig gat ég komið heilsunni á mjög góðan stað. Þarna lærði ég ung hve gríðarleg áhrif mataræði og þarmaflóran hefur á heilsu og trúi orðum Hippókratesar. Ég lærði líka að trúa ekki svarinu sem ég hafði svo oft fengið: “það er ekkert hægt að gera í þessu”. 

En þessi meðhöndlun náði þó ekki að rótum míns vanda, því ef ég var ekki á tánum með mataræði og lífsstíl og passaði upp á vinnuálag hrundi heilsan aftur. Það þurfti meira til. Ég hafði ekki öðlast skilning á heilanum og taugakerfinu og áhrifum undirliggjandi streitu á líkamann og þar með talið þarmaflóruna. 

Heilsuhrun

Það kom að því að ég lenti í aðstæðum sem voru þyngri en ég kunni að höndla. Það var að fylgja manninum mínum í gegnum heilakrabbamein og andlát. Ég hef reyndar sjaldan verið sterkari en í gegnum veikindin hans, þá var ekkert annað í boði. En eftir andlátið fór heilsan að gefa sig, öll einkennin sem ég þekkti dúkkuðu upp, en nú bættust við ný einkenni sem tengdust taugakerfinu. Ég hafði ekki lengur fulla stjórn á því og upplifði meiri kvíða en ég hafði áður kynnst. Þetta dró úr mér kjark til að taka að mér verkefni og setja mig í krefjandi aðstæður. Ég lenti svo í myglu á heimili mínu sem jók einkenni og viðkvæmni jókst enn frekar. Ný einkenni bættust á listann eins og  rafóþol og einkenni í öndunarfærum ef loftgæði voru ekki í lagi.

Ég hélt áfram að starfa við grafíska hönnun eins og ég gat en varð svo að hætta að vinna vegna stoðkerfisverkja í hrygg og öxl, sem lýstu sér m.a. þannig að öxlin mín hætti að virka og um tíma átti ég erfitt með að skrifa nafnið mitt. 

Ég var komin á erfiðan stað og upplifði vonleysi – og fannst ég horfa fram á örorku ef ég fyndi ekki leiðina til baka. Það er svo niðurbrjótandi að geta ekki unnið fyrir sér og hafa ekki orku til að taka þátt í samfélaginu. Því fylgir einsemd og sú mikilvæga tilfinning að tilheyra dofnar. Ég gekk á milli lækna og fór í gegnum allt litrófið af heilsumeðferðum, alltaf með von í brjósti um að þessi meðferðin eða hin mundi koma mér í lag, en uppskar í raun bara röð vonbrigða. Sumt hjálpaði eitthvað en svo fór heilsan alltaf úr skorðum aftur. Einn sjúkraþjálfarinn minn sagði “þetta er eins og að flysja lauk, þegar eitt lagast kemur eitthvað annað í ljós” og dýpt lauksins virtist endalaus.

Ég fann að sorgin tók á, það var eins og hún vildi ekki sleppa takinu, mér var ekki að takast nógu vel að lifa með henni. Ég spurði gigtarlækni hvort hann teldi sorg geta verið bólguvaldandi – hann sagði „við erum allavega hættir að hlæja að slíkri spurningu”. Í dag veit ég að auðvitað getur sorg verið bólguvaldandi og haft víðtæk áhrif á alla líkamsstarfsemina, efnaskipti, hormónaheilsu, örverukerfið, allt. Það eru engin skil milli hugar og líkama, þetta er allt ein heild.

Heilsan í forgang

Ég ákvað að setja heilsuna í forgang og í raun gerast hönnuðurinn að minni heilsuvegferð. Að stíga skref í áttina að því að skilja sjálf hvað líkaminn minn þyrfti til að verða heill. Ég vildi ekki lifa heilsulausu lífi og ákvað að fjárfesta í heilsunni. Leitin að heilsunni var langt og dýrt ferðalag en jafnframt það dýrmætasta sem ég hef farið í, því það breytir öllu að hafa komið heilsunni á góðan stað. 

Ég fór til Indlands á Ayurveda heilsusetur, Ayurveda Yoga Village, í mánaðarlanga hreinsun, sem kallast Panchakarma. Það var  mjög öflugt og heilandi og algjört ævintýri og mér leið frábærlega á eftir, en þegar íslenski raunveruleikinn tók við komu verkir og einkenni smám saman til baka. 

Ég fór í nokkur jógakennaranám, Hatha jóga í anda Vöndu Scaravelli á Indlandi, tók Integrative Amrit Jóga Nidra kennaranám (djúpslökunarjóga) og anatómíunám fyrir jógakennara hjá Gary Carter í London. Ásamt því hafði ég tekið Kundalini jóga kennaranám hér heima. Öll þessi nám voru frábær og eftir situr mikil þekking og fjöldinn allur af heilsuverkfærum sem nýtast mér í dag. En verkirnir héldu áfram og í raun breiddust út eftir að ég fór að stúdera anatómíu og rannsaka verkjasvæðin. Það var svo einkennilegt að ég varð í raun næmari á verki eftir því sem ég rannsakaði þá meira.

Ég ákvað svo að fara í nám í heilsumarkþjálfun, bæði til að halda áfram minni leit, en fannst það líka vera áhugaverður starfsvettvangur. Í heilsumarkþjálfun er fjallað um heilsuna á heildrænan hátt og unnið einstaklingsmiðað við að styðja fólk til að finna sína leið til heilsu. Litið er heildrænt á næringu; góður matur er mjög mikilvæg næring, en þættir eins og hlátur og félagslíf eru líka lífsnauðsynleg næring. Aðalmálið er að styðja hverja manneskju til að finna sína eigin leið til að nærast vel. Þetta var frábært nám og ég lærði margt. 

Lykillinn að mínum bata kom svo í kjölfar þess, þegar ég kynnast aðferðum þar sem unnið er út frá heila- og taugavísindum og þekkingunni um mótanleika heilans (neuroplasticity) og svokölluð taugamótuð einkenni (neuroplastic pain/symptoms). 
Þessi þekking varpar ljósi á hvernig undirrót langvinnra verkja og ýmissa annarra einkenna getur legið í heila og taugakerfi og í raun í fölskum boðum heilans um hættu. Taugamótuð einkenni eru jafn raunveruleg og einkenni sem koma vegna einhverskonar vefjaskemmda eða skaða, en aðferðirnar til að meðhöndla þau eru gjörólíkar. 
Eftir áralanga vinnu við að halda verkjum og einkennum niðri með því að meðhöndla þau svæði sem einkennin komu fram á, bæði með meðferðum, æfingum og ströngu mataræði, lærði ég aðferðir til að endurmóta viðbrögð heilans við áreiti og 
endurstilla taugakerfið. Þannig náði ég að brjóta upp mynstur sem viðhéldu verkjum, mataróþoli og iðraólgu, áfallaröskun og fleiru.
Þarna fann ég rót minna einkenna og svarið við því af hverju verkir og einkenni héldu áfram þrátt fyrir allar mína vinnu. 

Fyrsta námskeiðið sem opnaði augu mín fyrir þessari nálgun kallast DNRS og var mér ómetanlegt. En eftir það hefur þessi nálgun átt hug minn allan og ein af þeim aðferðum sem hefur nýst mér frábærlega og heldur áfram að nýtast mér kallast Pain Reprocessing Therapy eða (PRT Verkjaendurferlun) og ég bætti við mig PRT námi og býð uppá þá meðferð, sjá nánar hér.

Ég vildi dýpka þekkingu mína enn frekar á þessu sviði og fór í frábært nám í jákvæðri sálfræði við EHÍ og lauk MA diplómagráðu. Í hnotskurn fjallar jákvæð sálfræði um að rannsaka hvað einkenni gott og hamingjuríkt líf og hvað þurfi til að fólk blómstri og búi við vellíðan. Sjónum er beint að styrkleikum og því sem er ‘rétt’ við okkur, frekar en veikleikum og því sem er ‘að’ okkurUnnið er út frá þekkingu taugavísindanna og lífeðlisfræðinnar um mótanleika heilans og getu okkar til að hafa áhrif á líf okkar. Eitt af því sem jákvæð sálfræði hefur lagt til eru svokölluð jákvæð inngrip. Það eru inngrip eða einhverskonar ástundun sem rannsóknir hafa sýnt að virka til að bæta heilsu og vellíðan. Eitt af þeim inngripum sem mest hefur verið rannsakað eru þakklætisæfingar, þær sýna greinileg áhrif á líðan, en inngripin eru fjöldamörg og fjölbreytt.

Öndun er eitt af okkar öflugustu leiðum til að hafa áhrif á taugakerfið og ég hef verið heilluð af öndun alveg síðan ég byrjaði að læra jóga. En eftir lestur bókarinn Andardráttur ákvað ég að kafa dýpra í þau fræði og tók námskeið í meðvitaðri öndun, Conscious Breathing hjá Anders Olson, til að dýpka skilning minn á lífeðlisfræði öndunar og leiðum til að þjálfa bætta öndun í daglegu lífi.

Heilsan sjaldan verið betri

Þessi heilsuvegferð hefur breytt viðhorfum mínum og hugsun á djúpstæðan hátt og hefur verið mjög valdeflandi. Ég öðlaðist dýpri skilning á algjöru samhengi hugar og líkama og getunni sem ég hef til að endurmóta; hugarfarið, taugabrautir heilans, virkni taugakerfisins og mínar daglegu venjur og lífstíl. Líkaminn er hannaður til að gera allt sem hann getur til að halda okkur á lífi og í sem bestu formi og ég veit og hef upplifað að þegar forsendur batna er líkaminn öflugur í að heila sig og styrkja. 

Ég hef náð að dýpka tengslin við líkamann, eiga heima í honum og skapa vináttutengsl við hann. Ég hef líka öðlast ómælda virðingu fyrir líkamanum og aðdáun á því hvað hann er í raun stórkostlegur, eins og lífríkið allt. Ég ber ábyrgð á honum og skil hve margt varðandi heilsuna er í mínum höndum. Allskyns heilsuáskoranir eru partur af lífinu og að halda góðri heilsu er daglegt verkefni alla ævi. 

Mér finnst heilsa mín og líðan í raun á besta stað lífs míns núna, þegar á heildina er litið og er yfir mig þakklát fyrir það. Mér líður almennt vel og get gert flest það sem ég vil. 

Ég tileinka mér 80/20 hugsunina, ef ég lifi svona 80% heilsusamlega er ég góð. Sumt læt ég þó nánast alveg eiga sig, eins og hvítan sykur, það er efni sem setur minn líkama úr skorðum og mér líður svo mikið betur án þess.

Nú á það hug minn allan að nýta þá menntun og reynslu sem ég hef öðlast til að styðja fólk með langvinna verki og heilsufarsvandamál í gegnum sína vegferð frá verkjum til valdeflingar og vellíðan! 

Heilsuhönnun

heildræn, skapandi & valdeflandi

Þegar heilsan mín komst á betri stað og ég fór að þróa mitt starf við að styðja aðra við að endurheimta sína heilsu varð hugmyndin að Heilsuhönnun til. Ég er hönnuður að mennt og því vön að nýta aðferðir hönnunar til að leysa verkefni – og sú hugsun var mér nálæg í gegnum mína vegferð, að ég væri eigandi heilsunnar minnar og hönnuður heilsuvegferðarinnar minnar. Mér finnst það valdeflandi sjónarhorn. 

Í mínum huga byggir hönnun í grunninn á forvitni, bjartsýni og trúnni á að það séu alltaf til lausnir – þó þær séu ekki í augsýn í byrjun munu þær birtast í hönnunarferlinu. Hún snýst um að virkja sköpunarkraftinn til að móta og bæta veruleika okkar og leysa þau vandamál og fyrirstöður sem koma upp. Heilsuhönnun byggir á að nýta þessa eiginleika til heilsueflingar.

Hér er yfirlit yfir þær aðferðir sem ég byggi á:

Ég býð upp á bæði einstaklingsmiðaðar leiðir og námskeið. Smelltu á skoða þjónustu til að lesa meira – eða bókað kynningartíma ef þú vilt hitta mig og skoða hvort okkar samvinna gæti passað þér. Þú getur líka sent mér tölvupóst eða facebook skilaboð ef þú hefur spurningar eða vilt heyra í mér.

You can't use up creativity. The more you use, the more you have.

Scroll to Top

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína á henni