Owning our story and loving ourselves through that process is the bravest thing that we will ever do.

Heilsuvegferðin mín

Allir eiga sína heilsusögu og heilsuáskoranir. Ég deili minni hér í þeim tilgangi að veita þér innblástur til að setja heilsuna í forgang og trú á að hægt sé að ná fram umbreytingu heilsueflandi hugarfari, mataræði og lífsstíl. 

Mörg þau sem vinna með heilsu eiga þá sögu að hafa alltaf haft áhuga á heilsu og vellíðan. Ég get ekki sagt það um mig. Ég hafði engan sérstakan áhuga á heilsumálefnum, ég hafði bara áhuga á að hafa orku til að geta gert það sem mig langaði að gera. Ég var oft reið út í líkamann fyrir að geta ekki bara verið í lagi. Það var ekki fyrr en heilsan fór alveg á hliðina og ég hellti mér í heilsutengd fræði, að ég fór að hafa raunverulegan áhuga á henni. Ég uppgötvaði að forsenda þess að mér tækist að ná bata og ná að halda heilsunni góðri væri að finna mína leið til að tendra áhugann á því, að ná að dýpka eigin skilning á því hvað ég þarf til að byggja upp og viðhalda góðri heilsu. Áhugahvötin og trúin á eigin getur skipta svo miklu máli.

Heilsan hefur í raun verið mér áskorun síðan ég var barn þegar ég greindist með Hashimoto’s vanvirkan skjaldkirtil. Móðir mín hafði þá gengið með mig á milli lækna í um tvö ár að reyna að finna út hvað væri að dótturinni sem breyttist úr brosandi lífsglaðri stelpu í skapvonda og síþreytta stelpu. Þær eru þónokkuð margar sögurnar sem móðir mín hefur rifjað upp andvarpandi, eins og „þegar þú, 5 ára, lagðist ítrekað niður á gangstéttina og sagðist ekki labba skrefinu lengra vegna þreytu! Og ég þurfti að halda á þér um allt”.

Svo kom að því að svarið fannst og ég var svo heppin að eiga dásamlegan frænda sem var innkirtlasérfræðingur og hann greindi mig með Hashimoto’s vanvirkan skjaldkirtil. Ég fékk skjaldkirtilslyf sem komu mér í einhverskonar jafnvægi. Ég varð þó ekki sama hressa stelpan aftur, læknaheimsóknir voru algengar vegna allskyns kvilla sem lítið var um svör við.

Orkuleysi, heilaþoka, stoðkerfisverkir, höfuðverkir, sveppasýkingar, húðvandamál, þyngdaraukning, alls kyns mataróþol og meltingartruflanir hafa verið reglulegir gestir hjá mér. Ég hef fengið allskonar greiningar eins og vefjagigt, mígreni, latan ristil, bakflæði, athyglisbrest (ADD), ‘myofacial pain syndrome’, brjósklos og hrörnunarbreytingar í liðþófum. Ég hef verið í allskyns þjálfun og meðferðum sem hafa hjálpað og bjargað mér í gegnum erfið tímabil. Ég hef líka fengið lyf við mörgum af þessum einkennum, sum virkuðu vel, en mörg voru bara vel þegnir plástrar á einkennin í einhvern tíma og svo komu aukaverkanir sem færðu mér ný vandamál – og gömlu vandamálin komu aftur. 

Heilsan var dáldið eins og jójó – upp og niður og erfitt að treysta á hana og skipuleggja lífið, því ef heilsan fór niður fór allt skipulag í vaskinn. Ég náði þó að skapa mér aðstæður til að starfa sjálfstætt og gat þannig haft betri stjórn á vinnunni og dregið úr henni eða stoppað ef þurfti – sem gat verið ansi stressandi afkomulega. En heilsan hafði líka mikil áhrif á lífið í heild, orkan til að sinna fjölskyldunni, taka þátt í félagslífi, íþróttum og áhugamálum var oft af skornum skammti og svefninn oft í ólagi. 

Ég var svo heppin að komast um 25 ára gömul ( á síðustu öld! 🙂 í meðhöndlun hjá Helga Valdemarssyni lækni, einn af örfáum sem hafði þekkingu á mikilvægi örverukerfisins, löngu áður en það var eitthvað sem þótti mikilvægt. Það skipti sköpum fyrir mig að meðhöndla örveruóreiðuna og ofvöxt Candida sveppsins með réttu mataræði. Þarna lærði ég ung hve gríðarleg áhrif mataræði og þarmaflóran hefur á heilsu – og ég lærði að trúa því ekki þegar mér er sagt að það sé ekkert hægt að gera. Það er alltaf leið til að bæta, þó það sé oft krefjandi verkefni að finna rót vandans og leiðina til að koma heilsunni á betri stað.

En þessi meðhöndlun náði þó ekki að rótum míns vanda, því ef ég var ekki á tánum með mataræði og lífsstíl og passaði uppá vinnuálag og streitu hrundi heilsan aftur. Ég hafði ekki náð að skilja áhrif undirliggjandi streitu á heilsuna.

upp og niður heilsa

Heilsuhrun

Það kom að því að ég lenti í aðstæðum sem voru þyngri en ég kunni að höndla. Það var að fylgja manninum mínum í gegnum krabbamein og andlát. Ég hef reyndar sjaldan verið sterkari en í gegnum veikindin hans, þá var ekkert annað í boði. En eftir andlátið fór heilsan að gefa sig, öll einkennin sem ég þekkti dúkkuðu upp, en nú bættust við ný einkenni sem tengdust taugakerfinu. Ég hafði ekki lengur fulla stjórn á því og upplifði meiri kvíða en ég hafði áður kynnst. Þetta dró úr mér kjark til að taka að mér verkefni og setja mig í krefjandi aðstæður. Ég lenti svo í myglu á heimili mínu sem jók einkenni og bætti nýjum einkennum á einkennalistann.

Ég hélt áfram að starfa við grafíska hönnun eins og ég gat en varð svo að hætta að vinna vegna stoðkerfisverkja bæði í baki en einnig í öxlinn, sem lýstu sér m.a. þannig að vinstri öxlin mín hætti að virka (ég er örvhent…), um tíma átti ég erfitt með að skrifa nafnið mitt.

Ég var komin á erfiðan stað og upplifði vonleysi – og horfði fram á örorku ef ég fyndi ekki leiðina tilbaka. Það er svo niðurbrjótandi að geta ekki unnið fyrir sér og hafa ekki orku til að taka þátt í samfélaginu. Því fylgir einsemd og sú mikilvæga tilfinning að tilheyra dofnar og jafnvel hverfur. Ég gekk á milli lækna og meðferðaraðila í leit að heilsunni, alltaf með von í brjósti um að þessi meðferðin eða hin mundi koma mér í lag, en uppskar í raun bara röð vonbrigða. Sumt hjálpaði eitthvað en svo fór heilsan alltaf úr skorðum aftur.

Ég lifði nokkuð góðum lífsstíl en þurfti að fylgja ansi ströngu mataræði til að halda mér í lagi, sem gat verið erfitt að fylgja, bæði er það félagslega einangrandi og í vanlíðan getur verið erfitt að standast freistingar.

Ég fann að sorgin tók á, það var eins og hún vildi ekki sleppa takinu, mér var ekki að takast vel að lifa með henni. Ég spurði gigtarlækni hvort hann teldi sorg geta verið bólguvaldandi – hann sagði „við erum allavega hættir að hlæja að slíkri spurningu”. Í dag veit ég að auðvitað getur sorg verið bólguvaldandi og haft víðtæk áhrif á alla líkamsstarfsemina, efnaskipti, hormónaheilsu, örverukerfið, allt. Það eru engin skil milli hugar og líkama, þetta er allt ein heild.

Heilsan í forgang

Ég ákvað að ég yrði að fjárfesta í heilsunni og gefa mér tíma til að skilja  hvað líkaminn minn þyrfti til að heilast og halda heilsunni góðri í gegnum lífið.

Ég fór til Indlands á Ayurveda heilsusetur í mánaðarlanga hreinsun, sem kallast Panchakarma sem var mjög öflugt og umbreytandi.

Ég fór í jógakennaranám, Kundalini jóga hér heima og Hatha jóga í anda Vöndu Scaravelli á Indlandi, tók IAM jóga nidra kennaranám (djúpslökunarjóga) og anatómíunám fyrir jógakennara hjá Gary Carter í London. 

Í kjölfar þess fór ég í nám í heilsumarkþjálfun, þar sem fjallað er um heilsuna á heildrænan hátt og unnið einstaklingsmiðað við að styðja fólk til að finna sína leið til heilsu. Þar er litið heildrænt á næringu, góður matur er mjög mikilvæg næring, en þættir eins og hlátur og félagslíf eru líka lífsnauðsynleg næring. Aðalmálið er að styðja hverja manneskju til að finna sína eigin leið til að nærast vel.

Punkturinn yfir i-ið fyrir mig var að kynnast aðferðum þar sem unnið er út frá heila- og taugavísindum og þekkingunni um mótanleika heilans (neuroplasticity). Ég náði að skilja hvernig heilinn og taugakerfið virkar í tengslum við þrálát heilsufarseinkenni og lærði aðferðir til að endurstilla taugakerfið og endurmóta viðbrögð heilans við áreiti – og brjóta þannig upp mynstur sem viðhéldu verkjum, áfallaröskun, kvíða og fleiru. Þetta eru fræðin sem ég hefði viljað læra fyrst af öllu á minni heilsuvegferð. 

Ein af þeim aðferðum sem nýttust mér frábærlega og heldur áfram að nýtast mér kallast Pain Reprocessing Therapy eða (PRT Verkjaendurferlun). Ég hef svo tekið PRT námið til að geta boðið uppá þá meðferð,  sjá nánar hér.

Ég vildi dýpka þekkingu mína enn frekar og fór í frábært nám í jákvæðri sálfræði við EHÍ og lauk MA diplómagráðu. Þau fræði snúast um að rannsaka hvað þarf til að fólk blómstri og búi við vellíðan. Sjónum er beint að styrkleikum fólks og getu þess til að hafa áhrif á líf sitt. Eitt af því sem rannsakað er eru aðferðir til að bæta heilsu og auka vellíðan og bera yfirskriftina jákvæð inngrip. Ein af þeim inngripum sem mest eru rannsökuðu eru þakklætisæfingar.

Þessi heilsuvegferð hefur breytt viðhorfum mínum og hugsun á djúpstæðan hátt og hefur verið mjög valdeflandi. Ég öðlaðist dýpri skilning á algjöru samhengi hugar og líkama og getunni sem ég hef til að endurmóta hugarfarið og taugabrautir heilans. Ég hef upplifað hvað líkaminn er öflugur í að heila sig og styrkja þegar hann fær góða umhyggju, næringu og aðstæður og hugarfarið er rétt stilltÉg hef náð að dýpka tengslin við líkamann, skapa vináttutengsl, eiga hann og bera ábyrgð á honum og skilja hvað margt varðandi heilsuna er í mínum höndum.

Mér finnst heilsan í raun vera á besta stað lífs míns núna, þegar á heildina er litið, ég get gert flest það sem ég vil – og er yfir mig þakklát fyrir það. 

Með aukinni vináttu við líkamann hugsa ég betur um hann og virði hans þarfir. Ég hef náð að halda heilsunni ofarlega á forgangslistanum og veit hún er forsenda þess að allt annað í lífinu sé gott. Ég og líkaminn minn vinnum þetta saman, í samtali, vináttu og virðingu. 

Ég tileinka mér 80/20 hugsunina, ef ég lifi svona 80% heilsusamlega er ég góð. Sumt læt ég þó nánast alveg eiga sig, eins og hvítan sykur, það er efni sem setur minn líkama úr skorðum og mér líður svo mikið betur án þess.

Að halda góðri heilsu er daglegt verkefni alla ævi og allskyns heilsuáskoranir eru partur af lífinu. Þess vegna er svo mikilvægt að komast út úr íþyngjandi hugarfari gagnvart heilsunni og finna leiðir til að taka ábyrgð og gera heilsueflinguna að skapandi og áhugaverðu verkefni!

Nú á heilsa og heildræn heilsuefling hug minn allan og að hjálpa öðrum sem vilja setja heilsuna á teikniborðið og hanna sína vegferð í átt að góðri heilsu, hamingju og velsæld! 

Heilsa og hönnun

Ég er hönnuður að mennt er því þjálfuð í að beita skapandi nálgun og hönnunarhugsun við að leysa verkefni. Sá bakgrunnur hefur alltaf verið nálægur í gegnum heilsuvegferðina mína. Að sjá mótlætið sem verkefni sem hægt er að leysa með skapandi og lausnamiðaðri nálgun. Fyrir mér byggir hönnun í grunninn á bjartsýni og trúnni á að það séu alltaf til lausnir, hún snýst um að hanna og búa til eitthvað sem ekki er ennþá til, að leysa eitthvað sem hefur ekki verið leyst – þannig hef ég tileinkað mér að horfa á heilsueflinguna sem skapandi hönnunarverkefni.

You can't use up creativity. The more you use, the more you have.

Heilsuhönnun

Heilsuhönnun byggir á sköpunarkrafti og bjartsýni. Við vinnum í möguleikavíddinni – með ótakmarkaða trú á að það séu alltaf til leiðir til að leysa vanda eða umbreyta og komast á betri stað. Heilsuhönnun byggir á að hjálpa þér að skilja þínar þarfir og hvað þú vilt. Við nýtum ferli sem hjálpar okkur að halda utan um vegferðina, en þú færð ekki fyrirfram mótað prógramm sem þú átt að fylgja, heldur snýst verkefnið um að styðja þig til að móta þína leið til heilsueflingar.

Til að styðja þig á þinni heilsuvegferð nýti ég:

Hér að neðan geturðu skoðað hvað ég býð upp á – eða bókað kynningartíma þér að kostnaðarlausu og v skoðum í sameiningu hvort okkar samvinna gæti passað þér.  Eða þú getur sent mér tölvupóst, sms eða facebook skilaboð ef þú hefur spurningar eða vilt heyra í mér.

Scroll to Top

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína á henni