Um heilsuhönnun

Heilsuhönnun ehf. er í eigu Sóleyjar Stefáns Sigrúnardóttur og býður upp á heildræna heilsuhönnun & -markþjálfun, heilsutengd námskeið og heilsutengda grafík.

Eftir að lenda í veikindum sem komu í veg fyrir möguleika mína til að starfa sem grafískur hönnuður fór ég í langa vegferð í leit að leiðum til að endurheimta heilsuna (sem ég segi frá í lengra máli í hér heilsusögunni minni).

Nú þegar ég hef náð starfsgetu aftur vil ég nýta krafta mína í að styðja aðra sem vilja finna sína leið að bættri heilsu. 

Þegar ég fór að prófa mig áfram sem heilsumarkþjálfi fann ég að ég var enn að vinna sem hönnuður, bara á annan hátt. Ég var að hjálpa fólki að hanna sína leið til heilsu ásamt því að hanna grafískt efni til stuðnings.
Út frá þeirri vinnu kviknaði hugmyndin að Heilsuhönnun. Ég gúgglaði orðið og leitaði í orðabók en fann ekkert. Ég ákvað þá að búa það orð til og hafa að leiðarljósi í minni vinnu.

Í hugtakinu Heilsuhönnun felst sú hugsun að hægt sé að hanna heilsuna, þ.e. að heilsan sé mótanleg og að við höfum töluvert vald til að hafa áhrif á hana – við getum  hannað okkar leið til heilunar og heilsu.

Hér að neðan eru stuttar útskýringar á þeim nálgunum sem ég hef lært og byggi á.

Hönnun byggir í grunninn á sköpunargleði, forvitni, bjartsýni og að virkja innsæið. Hönnun er aðgerðamiðuð, snýst um að skissa og prófa sig áfram. Góð hönnun er heildræn, hún fléttar saman fegurð, virkni og næmi fyrir samhengi. Hún snýst um að skapa eitthvað nýtt, finna leiðir til að leysa vanda eða endurhanna það sem þarfnast umbóta – hún snýst um að gera heiminn betri og betri.

Heilsuhönnun byggir á þessari hönnunarhugsun og þeirri trú að það séu hægt að nýta sköpunarkraftinn í þágu heilsunnar, að hanna leiðirnar til að gera heilsuna betri og betri. Ef heilsan er ekki í lagi er tilvalið að setja hana á teikniborðið og móta leiðina í átt að bættri líðan.

Heilsumarkþjálfun hjálpar fólki að skilja eigin heilsu betur, skoða undirliggjandi orsakir, takmarkandi hugarfar og drauma og langanir. Heilsumarkþjálfun er valdeflandi leið sem byggir á samtali og opnum spurningum sem hjálpa markþega við að greina hvaða leiðir henta þeim best til að byggja upp og viðhalda góðri heilsu. Heilsan er skoðuð heildrænt og einstaklingsmiðað. Það er ekkert eitt mataræði eða lífsstíll sem hentar öllum. Hver manneskja þarf að móta sína leið og  prófa sig áfram skref fyrir skref. Heilsumarkþjálfi er ekki ráðgjafi eða fræðingur sem greinir eða gefur fyrirmæli, heldur er meira eins og samstarfsfélagi. 

Jákvæð sálfræði er vísindaleg nálgun sem gengur þvert á greinar sálfræðinnar, þar sem sjónum er beint að jákvæðum þáttum mannlegs lífs. Lykilspurningar eru: Hvað gerir mannlegt líf þess virði að lifa því? hvað leiðir til innihaldsríks lífs, lífsánægju og hins góða lífs?  Markmiðið er að skilja, rannsaka, uppgötva og koma á framfæri þeim þáttum sem stuðla að því að einstaklingar, stofnanir og samfélög blómstra. Í jákvæðri sálfræði er unnið með jákvæð inngrip sem eru ýmiskonar leiðir sem sýnt hefur verið fram á að auki hamingju og vellíðan fólks. Að vinna saman með inngrip jákvæðrar sálfræði og markþjálfun er öflug leið til að ná umbreytingu og árangri.

PRT verkjaendurferlun (Pain Reprocessing Therapy) er aðferð til að vinna með langvinna verki og ýmis önnur langvinn heilsufarseinkenni sem eru taugamótuð. Þegar svo er, liggur rót vandans í taugabrautum heilans og ofvirku streitusvari í taugakerfinu. Það hefur sýnt sig að PRT er öflug leið til að hjálpa fólki að endurtengja taugabrautirnar og komast út úr langvinnum einkennum.

Jóga á sér ótal birtingarmyndir í dag, en jóga er í grunninn leið til að tengja saman líkama og huga, leið til að finna sig heima í líkamanum, leið til kyrra hugann og vera hér og nú. Jógafræðin kenna okkur að anda, að slaka, að skynja stóru myndina í lífinu.

Það eru svo margt sem við getum sjálf gert til að verjast þeim heilsufarsógnum sem helst steðja að okkur í dag. Mörgu stjórnum við ekki, en mörgu getum við stjórnað. Það hvernig við lifum lífi okkar, hvernig hugarfar við temjum okkur, hvernig við nærum okkur hefur svo mikil áhrif á heilsu okkar, heilsualdur og lífaldur. 

Hugsjón mín með Heilsuhönnun er að veita fólki innblástur og valdeflingu til að ná að gera það sem til þarf til að byggja upp góða heilsu og getu til að lifa innihalds- og hamingjuríku lífi.

Leiðarljós í nálgun Heilsuhönnunar

Í Heilsuhönnun skoðum við heilsuna þína heildrænt. Allt í okkar daglega lífi hefur áhrif á heilsufarið. Til að finna okkar jafnvægi þurfum við að skoða heildina, þætti eins og tengsl okkar við eigin líkama, hugarfarið, öndun, svefn, mataræði, tengsl við náttúruna og  sköpunarkraftinn, fjölskyldu- og félagstengsl og innra öryggi.

Stór hluti af því sem við gerum daglega er vanabundin hegðun. Dagsdaglega hættir heilanum til að fara troðnar slóðir. Það getur verið áskorun að móta nýjar brautir, brjóta sig út úr rútínunni og leyfa sér að hugsa hlutina upp á nýtt. Þar er sköpunarkrafturinn lykilverkfæri. Hann er krafturinn sem við nýtum í heilsuhönnun. Við staðsetjum okkur í möguleikavíddinni, gefum okkur leyfi til að leika okkur, flæða, finna leiðir og láta okkur dreyma.

Í heilsuhönnun & markþjálfun er þér ekki sagt hvað þú átt að gera. Þú færð innblástur og verkefni til valdeflingar – þú færð hlustun og stuðning til að skapa þína leið – þú færð aðhald til að gera það sem þarf til að komast á góðan stað, blómstra og verða þinn eigin heilsuhönnuður. 

Það eru engar algildar aðferðir eða svör sem eiga við alla. Hver manneskja á sína sögu, sitt einstaka lífshlaup sem hefur m.a. áhrif á genahegðun, taugakerfið, hormónakerfið og örverukerfið. Hver manneskja þarf að byggja upp góð tengsl við sinn líkama til að finna hvað virkar; hvaða mataræði, hvaða hreyfing, hvernig félagslíf, hvaða skapandi starf o.s.frv. Í heilsuhönnun & markþjálfun færðu stuðning til að finna þínar leiðir.

Scroll to Top

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína á henni