YfIRLIT YFIR EFNI NÁMSKEIÐSINS

Í fyrri hluta námskeiðsins beinum við sjónum okkar í ríkari mæli að því að skilja verkina. Að fræðast og byggja grundvöll fyrir því að geta mögulega skilið við verkina. Þó fléttast viðfangsefnin auðvitað alltaf saman í gegnum allt námskeiðið.

1. HLUTI: Að skilja verkina

Við skoðum í upphafi hvernig langvinnir verkir og heilsufarsvandamál geta haft áhrif á hlutverk okkar í lífinu, eiginleika okkar og tilfinningar ásamt stöðu okkar í því félagslega samhengi sem við lifum í.

Hver manneskja er einstök og vegferð þín á námskeiðinu hefst á því að staldra við, taka stöðuna í upphafi og kortleggja:

  • Hvaða einkenni eru til staðar?
  • Hvernig hafa þau áhrif á líf þitt og sjálfsmynd þína?

Þessi grunnvinna er mikilvæg til að allt efni námskeiðsins nýtist þér sem best í samhengi við þín einkenni og þínar aðstæður.

Við förum yfir nýja og spennandi þekkingu taugavísindanna um heilann og samband heilans og verkja (og annarra heilsufarseinkenna sem tengjast taugakerfinu).

Þú fræðist m.a. um:

  • Hvað verkir og verkjaboð eru
  • Hlutverk heilans, viðvörunarkerfi hans og tengsl heilans og verkja
  • Langvinna verki; frumkomna, afleidda og taugamótaða verki
  • Taugakerfið og jákvæða og neikvæða streitu
  • Mótanleika heilans (neuroplasticity)
  • Að allir verkir eru raunverulegir, hver sem undirliggjandi orsök er

Þú færð verkefni sem hjálpar þér að vinna með efnið út frá þínum einkennum og aðstæðum.

Við höldum við áfram að fjalla um samband heilans, taugakerfisins og verkja og beinum sjónum að huganum.

Þú fræðist m.a. um:

  • Hugann, hvernig hann virkar og mátt hugans bæði jákvæðan (Placebo) og neikvæðan og neikvæð (Nocebo) áhrif hugans
  • Vitundina og hve stór hluti þess sem við hugsum og gerum er ómeðvitað
  • Hugarfar grósku og hugarfar festu (þroskaviðhorf og eðlisviðhorf)
  • samhengi huga og líkama og hvernig við getum virkjað hugann til að endurmóta taugabrautir heilans til að komast út úr langvinnum verkja mynstrum

Þú færð verkefni til að skoða og vinna með þinn huga í tengslum við þín einkenni – og upptöku sem hjálpar þér að vinna með samband þitt við verkina/einkennin.

Hér verða tilfinningarnar í sviðsljósinu. Við fjöllum um hvað tilfinningar eru, samband heilans og tilfinninga, hvaða hlutverki þær gegna og skoðum hvernig þær hafa áhrif á verki og einkennamynstur.

Þú fræðist m.a. um:

  • samband heilans og tilfinninga
  • mótanleika tilfinninganna
  • tilfinningalæsi
  • tengsl tilfinninga, huga og gjörða
  • uppbyggjandi og útvíkkandi áhrif jákvæðra tilfinninga á hugræna getu
  • heilunarmátt húmors og hláturs
  • eitraða jákvæðni

Þú færð upptöku sem styður þig við að skoða og skynja tilfinningar. Þú færð stuðningefni sem styður þig í að auka tilfinningalæsi þitt.

2. HLUTI: Að skilja VIÐ verkina

Í viku fimm beinum við sjónunum í ríkari mæli að þáttum sem styðja okkur í því verkefni að skilja við verkina.

Við fjöllum um mikilvægi þess að skapa sér sýn og stilla þannig áttavitann þangað sem við viljum stefna. Til að byggja grunninn að því vinnum með að greina grunngildi og styrkleika.

Sýnt hefur verið fram á að fólk sem þekkir gildi sín og lifir í samræmi við þau er líklegra til að búa við velsæld og góða heilsu. Þegar við tökum ákvarðanir, eða hegðum okkur á skjön við gildi okkar getur það valdið streitu og kvíða.

Þú fræðist m.a. um:

  • Að skapa sér framtíðarsýn
  • Gildi og styrkleika og færð æfingu til að greina þín grunngildi og styrkleika
  • Mikilvægi innri áhugahvatar, að það sem við gerum sé í samræmi við okkar innri áhuga og gildi okkar í lífinu.

Þú færð verkefni sem styður þig við að greina gildi þín og styrkleika og móta þér sýn.

Við skoðum mikilvægi þess að sýna sér mildi í daglegu lífi og getuna til að staldra við og spyrja sig hvers þarfnast ég núna? Við skoðum hvernig hægt er að endurmóta taugabrautir verkjanna í gegnum milt jóga sem eflir innra skyn og tengsl við líkamann.

Þú fræðist m.a. um:

  • Núvitund og hvað það þýðir að vera í núvitund
  • Áhrif samkenndar í eigin garð
  • Milt jóga sem hjálpar þér að skapa eða auka vináttutengsl þín við líkamann
  • Að lifa í þyngdaraflinu, um hrygginn, liðamótin og bandvefinn (fasíuna)

Þú færð verkefni sem hjálpar þér að skoða samkennd þína í eigin garð og leiðir til að vinna með hana. Ásamt því færð þú upptöku með jóga nidra djúpslökun.

Síðustu tvær vikurnar beinum við sjónum okkar að mikilvægi lífsstílsins. Við skoðum lífsstílinn á heildrænan hátt og hvernig við getum stutt við líkamann og heilsuna almennt.

Þú fræðist m.a. um:

  • Meðvitaða öndun í daglegu lífi sem gefur okkur á hverri stundu næringarefni sem við getum ekki verið án.
  • Svefninn, ofurkraftinn okkar.
  • Fræðist um þarmaflóruna og samband heila og þarma.
  • Hvernig hreyfing og hugleiðsla breytir heilanum.

Þú færð verkefni til að kortleggja þinn lífsstíl og skoða hvað er gott og hvað þig langar til að vinna með og bæta.

Við fjöllum áfram um heilsuvænan lífsstíl og tökum saman mikilvæga punkta eftir námskeiðið. Við fögnum þeirri umbreytingu sem þú hefur náð eftir vegferð námskeiðsins og hvernig þú getur mótað næstu skref til að byggja heilsu þína áfram upp og halda henni á góðum stað.

Scroll to Top

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína á henni