Fjöldi rannsókna hafa verið gerðar á faðmlögum og áhrifum þeirra á heilsu fólks og það kemur líklega fæstum á óvart að niðurstöður staðfesta mikilvægi þeirra fyrir okkur. Við þekkjum flest þá vellíðan sem faðmlög og snerting gefa.
Þó held ég að í amstri dagsins höfum við mörg tilhneigingu til að gleyma hve mikilvæg faðmlögin eru og gefum þeim oft ekki nægan tíma og rými. Faðmlög eru alltaf mikilvæg, en ekki síst þegar heilsan er ekki upp á sitt besta og við búum við langvinna verki. Þá skiptir allt þetta litla daglega sem eflir jákvæðar tilfinningar og framleiðslu vellíðunarhormóna svo miklu máli.
Verkir og heilsufarseinkenni geta haft þau áhrif að við lokum okkur meira af og erum ekki jafn opin fyrir snertingu. Það getur dregið úr okkar dagsdaglegu faðmlögum. Einnig hefur Covid dregið úr faðmlögum í lífi margra og gert fólk varara um sig.
Aðgangur okkar að faðmlögum er mjög mismunandi eftir aðstæðum, en gott er að hafa í huga að margskonar form af faðmlögum hafa heilsubætandi áhrif. Til dæmis að faðma dýrin í lífi okkar og trén í lífi okkar og svo er ein tegund faðmlaga sem við flest höfum stöðugan aðgang að sem sýnt hefur verið fram á að hafi sömu heilsubætandi áhrif; að faðma okkur sjálf.
Áhrif faðmlaga á heilsu
Faðmlög hafa mjög víðtæk áhrif á heilsu. Faðmlög hafa róandi áhrif og virkja framleiðslu vellíðunarhormóna okkar, sem sagt virkja okkar innra apótek. Sýnt hefur verið fram á að þau draga úr streituhormóninu kortisól og hafa þannig róandi áhrif. Þau örva vagus taugina sem er aðaltaug sefkerfisins okkar (parasympatíska kerfisins), sem hjálpar okkur að slaka á, að ‘hvíla og melta’ (rest and digest).
Faðmlög virkja framleiðslu á vellíðunarhormónum og taugaboðefnum sem gleðja okkur og auka öryggiskennd okkar. Aðal vellíðunar efnin eru; dópamín, oxitósin, serotonin og endorfín. Á ensku er hægt að mynda orðið “DOSE” úr upphafsstöfum þeirra og segja “remember to take your daily dose” – þ.e. mundu að virkja framleiðslu vellíðunarefnanna þinna daglega.
Varðandi faðmlög er mest fjallað um aukningu hormónsins oxytósin, sem oft er kallað ‘ástar’ eða ‘knús’ hormónið, en einnig að þau geti virkjað endorfín framleiðslu, sem er náttulegt verkjalyf líkamans.
Í grein á vefnum MedicineNet er farið yfir 11 heilsufarsáhrif faðmlaga, hér er lausleg þýðing:
- Faðmlög byggja upp traust og tilfinningu fyrir öryggi. Það hjálpar með opin og heiðarleg samskipti.
- Faðmlög hafa heilandi áhrif á erfiðar tilfinningar eins og einmanaleika, einangrun og reiði, þar sem þau geta aukið samstundis framleiðslu hormónsins oxytósin (sem er kallað ástar eða knús hormónið).
- Faðmlög styrkja ónæmiskerfið. Mjúkur þrýstingur á brjóstbeinið og tilfinningaleg upplifun örvar hóstarkirtilinn sem stýrir framleiðslu hvítra blóðkorna, sem sjá um að verja okkur gegn sjúkdómum.
- Faðmlög auka sjálfstraust. Þau hafa ekki aðeins þau áhrif að auka öryggiskennd okkar og tilfinningu fyrir því að vera elskuð, heldur auka þau sjálfstraust, hamingju og getu okkar til að elska okkur sjálf.
- Faðmlög slaka á vöðvum og losa þannig um spennu í líkamanum.
- Faðmlög geta slökkt á verkjum með því að auka flæði í mjúkvefjum líkamans.
- Faðmlag lækkar blóðþrýstinginn. Þegar þú faðmar, snertir eða situr nálægt einhverjum sem þér þykir vænt um framleiðir líkaminn áðurnefnda hormónið oxytósin, sem getur hjálpað þér að slaka á, draga úr kvíða og þannig lækkað blóðþrýstinginn.
- Faðmlög bæta heilsu hjartans. Ein rannsókn sýndi fram á lækkaðan blóðþrýsting og púls hjá þeim sem föðmuðust og snertust. Pörum var skipt í tvo hópa. Í öðrum hóp rannsóknarinnar var parið látið haldast í hendur í 10 sekúndur og faðmast svo í 20 sekúndur. Í hinum hópnum var parið látið sitja í þögn í 30 sekúndur. Blóðþrýstingur og púls lækkaði meira hjá parinu sem snertist og faðmaðist.
- Rannsókn sýndi að snerting og faðmlög drógu úr ótta við dauðann. Faðmlög auka öryggiskennd okkar. Niðurstöður benda til þess að faðmlög dragi úr tilvistarlegum ótta fólks.
- Faðmlag gerir okkur núvitaðri og meðvitaðri. Að vera til staðar í núinu eykur hamingju okkar. Faðmlög geta haft svipuð áhrif og hugleiðsla.
- Mikill fjöldi rannsókna hefur sýnt að snerting þar sem húð mætir húð, eins og milli móður og nýfædds barns, gefur mikilvægan líkamlegan og andlegan ávinning eins og minni grát, bættan svefn, aukið líkamsskyn, minni kvíða, rétta framleiðslu á vaxtarhormóni og aukna samkennd með öðrum þegar þau vaxa úr grasi.
Í grein í tímaritinu Healthline er fjallað sérstaklega um áhrif sjálfs-faðmlaga. Þar er fjallað um verkjastillandi áhrif sjálfs-faðmlaga og hvernig þau geta aukið með okkur öryggiskennd, bætt skapið og aukið samkennd í eigin garð.
Skiptir máli hvað mikið og hvernig við föðmumst?
Í umfjöllunum um faðmlög kemur eftirfarandi tilvitnun í fjölskyldufræðinn Virginíu Satir oft fyrir:
„Við þurfum fjögur faðmlög á dag til að lifa af. Við þurfum átta faðmlög á dag til að viðhalda okkur. Við þurfum tólf faðmlög á dag til að vaxa.”
Það er nú líklega erfitt að negla niður tölfræði um áhrif faðmlaga, en það virðist nokkuð ljóst að því fleiri faðmlög því betra – og því lengri því betra. Ýmsar tímalengdir eru settar fram, frá 6 sekúndum og upp í 20 sekúndur. Aðeins 6 sekúndna faðmlag byrjar að kveikja á heilsubætandi áhrifum og svo aukast þau ef faðmlagið er lengra, því þá aukast slakandi áhrifin og seyting ‘knúshormónsins’ oxytósin. Þetta á auðvitað bara við faðmlög þar sem faðmlagið er velkomið og traust er til staðar. Mikilvægt að hafa í huga að sumum líkar ekki að faðma, en geta fengið sömu áhrif í gegnum handasnertingu eða aðra snertingu.
Fræðikonan Barbara Fredrikson hefur rannsakað jákvæðar tilfinningar og hvernig þær hafa uppbyggjandi og útvíkkandi áhrif á okkur. Hún talar um að við þurfum allavega 3 jákvæðar upplifanir á móti 1 neikvæðri til að líða vel og hvetur okkur til að vera vakandi yfir því að hver dagur búi yfir jákvæðum tilfinningum. Rétt eins og matardiskurinn á að búa yfir nægu magni af ávöxtum og grænmeti, á tilfinningadiskur dagsins að búa yfir nægu magni af jákvæðum upplifunum.
Faðmlög eru klárlega eitt af því sem eflir jákvæðar tilfinningar. Munum að virkja heilunarmátt þeirra daglega, 8 sinnum á dag, eða jafnvel 12 sinnum!
Námskeið um langvinna verki eða önnur heilsufarseinkenni
Á námskeiðinu Skiljum (við) verkina: Það skiptir sköpum að skilja verkina til að geta skilið við þá, förum við yfir fræði um verki og samband heilans, taugakerfisins og verkja – og margskonar leiðir til að efla framleiðslu heilandi vellíðunarhormóna og þannig endurstilla taugakerfið og endurtengja taugabrautir heilans. Fimmtudaginn 25. nóv. verður hálfsdags vinnustofa um þetta. Sjá nánar hér um það og næstu námskeið.
Vertu velkomin/n/ð á póstlistann ef þú hefur áhuga á að fylgjast með starfi Heilsuhönnunar. Skráningarformið er neðst á síðunni.
Slóðir á heimildir:
Hér fyrir neðan er lítið myndband til faðmlaga-innblásturs!